Grunnskólinn Valsárskóli



Vefsíða skólans

Grunnskólinn er fámennur skóli með samkennslu nemenda. Fjöldi stöðugilda breytist í takt við nemendafjöldann hverju sinni. Kennt er í fimm bekkjardeildum, 1. og 2. bekkur, 3. og 4. bekkur, 5. og 6. bekkur, 7. og 8. bekkur, 9. og 10. bekkur. 

Haustið 2008 tók til starfa frístund fyrir nemendur í 1. - 4. bekk.

Saga skólahalds á Svalbarðsströnd nær samkvæmt heimildum aftur til ársins 1902. Farskóli var rekinn frá því að fræðslulögin voru sett 1907 og fram til ársins 1922 þegar lokið var við byggingu samkomuhúss hreppsins sem nýtt var sem skólahús á vetrum til ársins 1970. Þá var skólahald flutt í nýtt skólahúsnæði en kennsla unglingastigs og íþróttakennsla fór fram á Hrafnagili í Eyjafirði og var nemendum ekið þangað daglega. Sundkennsla fór þó fram í sundlaug Svalbarðsstrandarhrepps sem byggð var 1931 og er svo enn. Svalbarðsstrandarhreppur tók þátt í uppbyggingu skólahúsnæðis á Hrafnagili en mikill hugur var í heimamönnum um byggingu íþróttahúss á heimastað og að grunnskólakennsla sveitarinnar færi öll fram á heimavettvangi. Árið 1995 var flutt í nýtt skólahúsnæði og íþróttahús. Nýi grunnskólinn fékk nafnið Valsárskóli.

Stærstur hluti eldra húsnæðis var tekinn undir rekstur leikskólans Álfaborgar. Árið 2004 var tekin í notkun 420 fermetra viðbygging við skólann og árið 2005 voru verkmenntastofur í gamla skólahúnæðinu í leikskólanum endurgerðar ásamt skólaleikvelli með nýjum leiktækjum. Sparkvöllur við skólann var tekinn í notkun haustið 2008. Skólahúsnæðið telur alls um 1715 fermetra og hluti þess er jafnframt nýttur sem félagsaðstaða sveitarfélagsins.

Arkitektar grunnskólans eru tveir. Bárður Daníelsson hóf vinnuna en við skipulagningu og hönnun innanhúss tók Sigríður Sigþórsdóttir hjá VA arkitektum ehf við en hún er einnig arkitekt viðbyggingar.

 

Sjá einnig: 


Efni yfirfarið 10.11.21